Wednesday, March 5, 2008

Svanur Magnús

Örninn settist klofvega yfir handriðið og hrækti niður af svölunum. Hann var með nokkra lausar skinnpjötlur á herðunum sem höfðu þau áhrif að hann hugsaði í sífellu um gamlar sagnir af næringarástandi franskra sjómanna við Íslandsmið. Handriðið sem hafði verið tímabundið og lauslega fest á svalirnar með brúnu teipi, sveiflaðist lítillega í golunni.
Staðsetning arnarins hafði slæm áhrif á verðbréfafulltrúa sem sat á gluggasillunni við svalahurðina. Honum varð ómótt og augu hans slepptu nokkrum bréfdúfum út í kremgult haustkvöldið. Staðsetning ránfuglsins sem var draplitaður að mestu fyrir utan ljósar skinnpjötlurnarnar á herðum hans hafði einnig slæm áhrif á brúnt teipið sem hélt handriðinu á tilætluðum stað.
Drottinn horfði á örninn og teipið ofnanúr nýtískulegri herþyrlu sinni, fékk sér í vörina og skipti um gír.
Verðbréfafulltrúinn sem var með fljótandi vax á handarbakinu stóð upp af gluggasillunni og lagðist flatur á magann á miðjar svalirnar. Lagði hendurnar niður með hliðunum, réttti úr hálsinum og hvíldi hökuna á svalagólfinu. Hann minnti örninn helst á japanskt flugskeyti sem hann hafði séð í spennandi heimildarþætti. Hins vegar minnti hann drottinn á að eitthvað hafði farið hræðilega úrskeiðis. Hann starði í smá stund á verðbréfafulltrúann, fékk síðan óstöðvandi ekkakast, steypti þyrlunni niður að jörðinni og stytti sér aldur í sannfærandi blossa.
Erninum sem var í þá mund að kveikja sér í tóbaki, varð hverft við sprenginguna, flaug af stað og linnti ekki fluginu fyrr en hann var kominn til Bíldudals. Þar fékk hann sér júmbósamloku og lindubuff og ákvað að hætta í ruglinu. Hann fékk vinnu sem húsvörður í grunnskólanum, settist að lokum að og rekur þar nú efnalaug/diskótek.
Verðbréfafulltrúinn liggur ennþá á maganum á svalagólfi einhverstaðar í Neðra-Breiðholti og er orðinn aumur í hökkunni

No comments: